Tuesday, July 12, 2016



Síðasti dagurinn í Riga og heimferð á morgun.  Á öllum okkar ferðum höfum við fyrir löngu lært það að 2 nætur í borgum fyrrum austantjaldríkjanna er yfirleitt alveg passlega.  Höfum stundum haldið að það væri sniðugt að vera lengur en það hefur aldrei virkað.  Vorum til dæmis 3 nætur í Sarajevo og Ljubljana og það var akkúrat einni nótt of langt...  

En Riga er falleg borg með líflegan miðbæ þar sem er gaman að ráfa um og skoða hús, veitingastaði og búðir.  Í dag fórum vð samt aðeins út fyrir borgina í Lettlenska Ethnografica Musea.  Þetta er þeirra Árbæjarsafn nema á 80 hektörum lands.  Það var svo fínt veður hér í sagt að það var nú bara nauðsynlegt að komast aðeins út úr miðbænum.  Safnið er í skógi og bæði fíðfemt og fróðlegt.  Þarna röltum við um skógar lundina mestmegnis í sólbaði.  Húsakostur Letta hefur greinilega í gegnum aldir verið afar einhæfur og frekar litlaus.  En samt sem áður miklu miklu glæsilegri heldur en það sem við Íslendingar kúldruðumst í í gegnum aldirnar.  Hér er auðvitað endalaust byggingarefni í skóginum og það sést vel á byggingarstílnum, grindverkum og fleiru.  Þarna var verið að skipta um það á gríðarstóru húsi, greinilega mikil framkvæmd - greidd með Euromoney - nema hvað ! 



Síðdegis keyrðum við aftur inn í borgina en Lárus var búinn að panta klippingu og rakstur.  Hann hefur það sem alveg furðulegan sið að fara í klippingu í hverju landi sem við komum til.  Núna var hann hálf kyndugur þegar hann kom til baka en hann hefur ekki í mínu minni verið svona snöggklipptur áður.  Held að þeir hafi ekki alveg verið með mælieiningarnar á hreinu þegar klipparinn spurði hvaða lengd hann vildi...  3 mm er ekki mjög mikið - sérstaklega ekki þegar við erum að tala um hár...

Ég naut mín aftur á móti vel alein á rölti um miðborgina á meðan.  
Borðuðum á skemmtilegum miðalda veitingastað í kvöld og svo var pakkað niður enda er flug heim snemma í fyrramálið










Monday, July 11, 2016

Engin mynd í dag en ég gleymdi að taka myndir á símann sem er nauðsyn eigi þær að rata hingað inn. Get ekki lýst því hvað ég hef oft pirrað mig á því að hafa ekki keypt myndavél með WiFi möguleika þegar ég endurnýjaði græjurna í fyrra.  Nennti bara ekki að skilja tilganginn í búðin en fattaði dæmið eiginlega um leið og ég tók fyrstu myndina. Verulega seinheppið ...

Annars fórum við frá Sigulda í dag og keyrðum til Riga.  Þetta eru nú ekki nema um 60 km svo við vorum enga stunda á leiðinni.  Það rigndi hreinlega eldi og brennisteini á leiðinni svo við hættum við öll stopp sem við vorum búin að ákveða, rennum bara til baka á morgun. 

En í dag erum við búin að skoða að ég held allt það markverðasta í Riga. Þessi borg er augljóslega ekki Tallin sem mér finnst heldur skemmtilegri svona hreinskilnislega. En Riga er falleg, gömul borg þar sem grænt umhverfi og garðar eru áberandi.  Hér eru sérstæð og merkileg hús á hverju strái sem gaman er að skoða.  Fórum i "Occupation museum" og þar með höfum við heimsótt þau öll í öllum baltnesku löndunum.  Saga þessara landa er afar samtvinnuð þó að hér sé um gjörólíkar þjóðir að ræða.  Ég get ekki annað en fyllst óendanlegu þakklæti fyrir þá gæfu að hafa fæðst Íslendingur þegar maður sér þær hörmungar sem gengið hafa yfir þessar þjóðir en velflestar eru þær af mannavöldum sem er ólíkt þeim hörmungum sem íslenska þjóðin þurfti að glíma við.  Mannvonska, hatur, eyðilegging, pyntingar, limlestingar og illvilji er eitthvað sem maður þarf vonandi aldrei að upplifa.  Við eigum að vera svo óendanlega þakklát fyrir það land og þann frið sem okkur hefur verið gefinn.  Þetta er nefnilega ekki sjálfgefið ! 

Gerðuð þið ykkur grein fyrir því að Pepsi fæst ekki í þessum löndum !   Þar af leiðandi fæst ekki Pepsi max sem er frekar slæmt mál !    Ætli þetta sé markaðsmisnotkun ! ! ! 

Sunday, July 10, 2016

Fínt hótel hér í Sigulda en morgunmaturinn var vonbrigði.  Nennti nú reyndar ekki að agnúast út af því því greinilegt var að blindfullu Finnarnir sem hér voru í rútuferð höfðu étið allt upp til agna og ekkert var fyllt á aftur.  Nú get ég skemmt mér yfir að "rate´a" hótelið illa svona til tilbreytingar frá öllu þessu jákvæða frá mér á www.booking.com.

Byrjuðum daginn á langri gönguferð um Sigulda.  Þetta er helsti sumardvalarstaður Lettlands inn í landi en hér eins og í Eistlandi er vinsælast að fara á ströndina.  En hér skoðuðum við Sigulda kastala, pappírs framleiðslu, kirkjuna og stafa garðinn áður en fór a helli helli rigna.  Náðum að skjótast undir tré og þar urðum við að híma í hátt í 20 mínútur.  Ekki það gáfulegasta, veit það,  en það voru engar eldingar !   Hér er afar skemmtilegur ævintýragarður kenndur við Tarzan enda eru þetta miklar klifur brautir upp og niður trén hér í skóginum.  Við tókum stólalyftu hér á milli svæðanna og skemmtum okkur konunglega við að horfa á krakkana klifra í þessum tækjum.   Meiriháttar flott...

Myndin hér að neðan er af einum af turnum gamla Sigulda kastalans.  Þarna eru búið að koma fyrir þessum útsýnisturni ofan á virkisveggnum og trúið því eður ei ---- það er lyfta upp (Euromoney).  En þarna uppi við þakglugganan hölluðum við hjónin okkur bæði út um gluggann og ég lýg því ekki við fundum bæði að húsið hreyfðist...  Djö... sem við vorum fljót niður.  Eitthvað ekki alveg í lagi með verkfræði hönnunina á þessum bænum ! 



Þessari mynd stal ég á netinu - raunveruleikinn er allur annar ! ! ! 

Hér er farið með kláfi yfir á hinn gilbarminn á Gauja, ef gil skyldi kalla þessa dæld í náttúrunni !  Þar er Krimulda kastali bæði sá eldri og yngri.  Á myndum er yngri Kastalinn afskaplega fallegur byggður í lok 19. aldar.  En í raun þarfnast hann svo sárlega viðhalds að það er hreint dapurlegt.
Þarna er verið að reyna að halda úti einhvers konar heilsustofnun en mikið lifandis myndi ég verða fyrir miklum vonbrigðum ef ég hefði keypt mér dvöl í þessari hryggðarmynd...


Enduðum  daginn í Turaida en þar er enn einn miðaldakastalinn.  Þarna eru aftur á móti greinilega til peningar og allt er svo flott og vel hirt.  Það er hreinlega verið að byggja upp kastalann aftur og allt svæðið er svo glæsilegt.  Ætli þetta séu ekki Euromoney sem þarna eru í notkun.  Það er svo greinilegt að öll baltneskum löndin hafa notið mjög góðs af aðild sinni að Evrópusambandinu.  Hér eru öll stærstu mannvirkin og þau sem eru flottust og bestu vegirnir merktir framlögum frá Evrópusambandinu.  Það tala allir um Euromoney og að með þeim sé hægt að gera svo góða og glæsilega hluti.  Í Sigulda var til dæmis útisvið með tilheyrandi aðstöðu sem er svo stórt og flott að það tekur engu tali.  Ætli sviðið sjálft hafi ekki slagað í 800 m2 fyrir utan aðstöðu og fáránlega stórt hellulagt svæði fyrir áheyrendur.  Euromoney engin spurning. Hér er í raun betri aðstaða víða en heima.  Það eru hreint alls staðar salerni eins og þessi enda sést hvergi nokkurs staðar til manneskju út í móa að pissa.



Við erum auðvitað ekkert minna en snillingar í að gera einfalda hluti flókna Íslendingar...  OG svo var það auðvitað snilldarlegt að slíta viðræðum við ESB þegar alveg hefði dugað að setja þær á hold. Held að við hefðum alveg örugglega þegið svolítið af Euromoney víða á Íslandi.

Núna þegar ég skrifa þetta er heill þáttur í eistneska sjónvarpinu um Sigurrós.  Flott landkynning þó að ég sé ekki alveg að fíla músíkina....

Borðuðum á frábærum stað í kvöld:  Restaurant Kungu Rija í Turaida.

Saturday, July 9, 2016

Ef einhver heldur að þetta sé frí þá er það mikill misskilningur...  Þetta er ferðalag :-)


Í morgun byrjuðum við á Estonian museum sem er í miðbæ Tallinn.  Þarna var rakin saga Eistlands í 11.000 ár.  Þessi þjóð mælist ítrekað sú óhamingjusamasta í Evrópu og að þeirra eigin sögn er það engin furða.  Hér hefur hver óáránin  rekið aðra um aldir. Plágur, hungursneyðir og síðan hernám þjóðarinnar af ýmsum ríkjum.  Hér hafa Danir, Svíar, Þjóðverjar og Sovétríkin séð til þess að Eistar hafa svo til aldrei verið frjálst og fullvalda ríki.  Þess vegna kannski leggja þeir slíka ofuráherslu á menningu og hefðir eins og raun ber vitni.  Eru í þjóðlegum fatnaði, kunna þjóðdansa og söngvarnir þeirra eru almannaeign og samsöngur eru stærstu útihátíðir hvers sumars.  Annars vekur hvað mesta athygli á söfnunum hvað þau eru framarlega í tækni og gagnvirkni.  Það eru alls staðar snertiskjáir þar sem hægt er að fá upplýsingar og taka þátt í alls konar verkefnum.  Lárus gleymdi sér til dæmis alveg við að hlaða og skjóta af alls konar byssum á einum tölvuskjánum.  Það var stórmerkilegt að sjá...


Kíktum í grasagarð Tallinn sem er bæði stór og afar fallegur.  Þar var rósagarður risastór í blóma og fullt af plöntum eins og tilheyrir á svona stað.  Risastórt gróðurhús sem lét mann dreyma um Eden endurbyggt.  Alltaf gaman að ráfa um í svona garði. 

Lögðum af stað til Lettlands um kl. 14 og ferðinni er heitið til Sigolda sem er bær i Gauja þjóðgarðinum.  Á leiðinni tók Garmurinn sjálfstæða ákvörðun þvert ofan í alla skynsemi og núna þegar þetta er skrifað líður okkur eins og við munum enda í Rússlandi.  Erum að keyra lóðbeint í austur þegar allt vit segir manni að við eigum að fara í suður. Við ákváðum að hlýða kerfinu og þess vegna er spurning hvar við endum ...  Annars er þetta fallegri leið - spurning reyndar hvort að Helgi hennar Sibbu hafi forritað Garminn þannig að við kæmum ekki heim aftur  ! ! !

En eftir miklar efasemdir og akstur um þrönga skógarstíga og furðulegar götur birtist allt í einu skilti með nafni Latvia og við vorum komin yfir landamærin.  Ennþá í skóglendi en þó á leðinni suður...


Eftir akstur á krókaleiðum, malarvegum og eyðilegum vegum sáum við glitta í Sigulda merkingar og vissum að við vorum að nálgast réttan stað.  Renndum í blað 6 tímum eftir brottför frá Tallin og höfum sjálfsagt verið um 1-2 tímum að villast um sveitir Eistalands og Lettlands sem bónus í þessari ferð. 

Sigulda er skemmtilegt svæði sem verður skoðað betur á morgun...

Friday, July 8, 2016

Vöknuðum nær dauða en lífi vegna kulda í morgun og eyddi ég drjúgri stund í að blóta þessu hóteli fyrir loftræstinguna sem hafði verið á fullu í alla nótt og hitastigið að nálgast frostmark í herberginu.  Netið er vonlaust í herberginu og nú bættist loftræstingin við ! ! !   Var alveg komin í gírinn til að sýna starfsfólkinu í móttökunni í tvo heimana þegar Lárus dró fram fjarstýringuna af loftræstingunni sem hafði verið stillt ansi neðarlega svo þetta var okkar eigin aulaháttur.  Ekkert rifist þennan morguninn og enginn ennþá orðinn lasinn ...


Vorum komin út af hótelinu um hálf ellefu og hófst þá skoðunarferðin mikla a la Aldís.  Keyptum Tallin kort og þá verður auðvitað að nota það.  Byrjuðum í kirkju hér rétt hjá sem hýsir Niguliste safnið.  Þar voru helstu gripir altaristafla ein forkunnarfögur og listaverkið Danse Makabre sem er þjóðargersemi hér í Tallin.  Mjög skemmtilegt að sjá þetta og kirkjuna auðvitað líka en hún hefur að fullu verið endurbyggð eftir að hafa verið sprengt í tætlur í mars 1944. Fórum þaðan á sýningu samtakanna sem stóðu fyrir söngbyltingunni sem endaði með sjálfstæði Eistlands árið 1991. 

Röltum þaðan á Occupation safnið sem er einstök minning um þann tíma sem Eistland var undir stjórn annars vegar Þjóðverja og síðan Sovétríkjanna. Það var hreint með ólíkindum að sjá og lesa um þennan tíma og það ofríki og kúgun sem þjóðin mátti búa við.  Bókin 1984 sem ég er nýbúin að lesa lýsir þessu í raun gríðarlega vel en þarna á safninu mátti sjá hvernig til dæmis sögubókum var breytt og staðreyndir þurrkaðar út til að þær hugnuðust betur kommúnistunum í austri.  Gert var grein fyrir öllum þeim fjölda sem sendur var í Gúlagið fyrir litlar sem engar sakir og einnig þeim tugþúsundum sem höfðust við í skógunum á þessum tíma.  Þarna var síðan átakanlegt verk sem var framlag Eistna á Feneyjatvíæringum stýrir nokkrum árum sem gerði grein fyrir sögu manns sem var yfirmaður á samyrkjubúum þegar upp komst um samkynhneigð hans og niðurlæginguna, refsingarnar og pyntingarnar sem hann varð fyrir áður en hann síðan var myrtur.

Ég veit vel að hin frjálsu Vesturlönd eru ekki fullkomin en eftir því sem maður kynnir sér betur sögu þeirra þjóða sem máttu lúta ofríki og kúgun Kremlarstjórnar finnst manni það nærri óskiljanlegt að nokkur upplýst manneskja skuli enn þann dag í dag horfa til þessa tíma og þessa stjórnarfars með glýju í augum.  Mikill er misskilningurinn og blindnin ef svo er....


Fórum frá þessu safni að virkinu sem umlykur gamla bæinn hér í Tallinn. Þar klifum við nokkra turna og nutum útsýnisins og gengum auk þess 200 m langa trébrú sem hangir á milli tveggja turna.  


Þaðan tókum við strætó hér aðeins út fyrir miðbæinn og skoðuðum stórkostlegt safn Seaplane Harbour.  Þar er með gagnvirkum og líflegum hætti gerð grein fyrirr sjóferðum, kafbátum, ísbrjótum og fleirum er tengist hafinu og hernaði.  Hef sjaldan komið í tæknivæddasta safn en við komu skráði maður netfangið sitt og fékk sérstakt kort og ef manni leist vel á eitthvað af upplýsingunum á skjánum sem voru út um allt bar maður kortið að vélinni og fékk upplýsingarnar sendar í tölvupósti.  Mergjað.  Þarna fórum við í skrilljónasta  skiptið að skoða kafbát - held að ég sé búin að skoða þá fyrir lífstíð.  En heimsóknin í ísbrjótinn var ekki síður skemmtileg.  Auðvitað var einstaka sinnum tekið hlé á skoðunum og kíkt á veitingastaði og í búðir en hér er fjöldi skemmtilegra hverfa og staða þar sem má slappa af og njóta tilverunnar og mannlífsins. 

Fórum í kvöld á einstaklega góðan veitingastað hér við aðaltorgið sem heitir D.O.M.  Kokkurinn tók okkur með kostum og kynjum og gátu þeir Lárus rætt heilmikið um Bocuse D´Or keppnina sem er sameiginlegt áhugamál allra matreiðslumeistara.   En það er hæglega hægt að mæla með þessum stað , einstakur matur í fallegu umhverfi.  

Thursday, July 7, 2016

Við erum orðin gömul ! ! !

Vöknuðum fyrir allar aldir í morgun, algj0rlega að ástæðulausu.  Vorum komin í morgunmat eldsnemma og eftir hið daglega kampavín drifum við okkur í göngu um ströndina svona í síðasta sinn. Fórum svo í spa einnig í hinsta sinn.  Nú gerðum við greiningu á aðstöðunni til að muna ef að við myndum nú einhvern tíma þurfa að vita svoleiðis lagað.  Í sundlauginni eru 11 stöðvar með alls konar nuddi og bunum og flóðum og slíku.  Þrír heitir pottar eru inni allir með nuddi.  Bar er í lauginni að sjálfsögðu og þarna eru einnig legu bekkir og upphitaðir stórir flísalagðir  bekkir sem eru guðdómlega sniðugir.  Utandyra eru tveir nuddpottar og sólbaðsaðstaða af bestu gerð. Gufuböðin eru fjölmörg en algjört uppáhald eru smoke sauna, aróma saunan og Salt sánan.  Eftir þessa daga erum við svo fínpússuð að það hálfa væri nóg ...
Í morgun prófuðum við svo loksins Dauðahafs laugina sem er flot laug.  Það var frábær upplifun og afar afslappandi.  Saltið er svo mikið i vatninu að maður á í basli með að halda sér uppistandandi.  Bragðið af þessu minnir óþyrmilega á bragði af bræninu í eldgamla frosptinnakerinu sem einhverjir muna kannski eftir. Maður heldur að maður deyji hratt og vel ef þetta er gleypt - sem auðvitað á ekki að gera ! 

Öllu þessu náðum við fyrir hádegi eða áður en við yfirgáfum hótelið og héldum af stað til Tallin.  Ef einhver heldur að það sé flókið að ferðast í þessu landi þá er það mikill misskilningur.  Hér eru góðir vegir þó flestir minni þeir á veginn milli Hveragerðis og Selfoss.  Umferðin er ekki mikil og allir eru afar kurteisir og liðlegir.  Landið er auðvitað marflatt og fátt sem vekur athygli meðfram veginum.  Nema ef vera skyldu afar vel hirtir og fallegir garðar við heimahús en margir leggja gríðarlega vinnu í garðana sína.

Byrjuðum á að finna verslunarmiðstöð hér í Tallin því ég var búin að ákveða að kaupa mér blómatösu á nýja reiðhjólið mitt og hún fékkst eingöngu á einum ákveðnum stað hér.  Missti mig síðan örlítið í verslunarmiðstöðinni úr því að maður var nú kominn þangað.  Verðlagið hér er auðvitað bara grín :-)

Hótelið okkar er við aðaltorgið í Tallin sem var vægast sagt misráðið...  Lentum í þvílíkum vandræðum með bílinn og enduðum á að þurfa að leggja þónokkuð í burtu og vandræðast síðan með farangurinn uppá hótel.  Það er auðvitað gaman að vera svona í miðbænum en músíkin frá kránni hér í 2 metra fjarlægð er nú ekkert sérstaklega að gleðja mann...

En Tallin er falleg borg sem við skoðuðum aðeins í kvöld þrátt fyrir að það væri bæði kalt og blautt.  Þegar fór nú að hvessa líka var betra að kúra bara á hótelinu og horfa á fótbolta...  Það getur víðar verið hráslagalegt en á Íslandi ...

Wednesday, July 6, 2016

Enn einn ljúfur dagur í Parnu.  Morgunverður og kampavín og svo langur göngutúr um ströndina.  Ég læt ekki Lárus komast upp með að losna við ströndina þó hann þoli ekki sand.  Ég elska sjóinn og sandinn og get ráfað þarna um endalaust...

Við erum alveg að njóta þess að búa á spa hóteli og þetta er nú með þeim betri.  Sleiktum sólina á útisvæðinu eftir fótsnyrtingu og ég náði að klára bókina Borgir og eyðimerkur eftir Sigurjón Magnússon. Fantagóð um Kristmann Guðmundsson og erfiða tíma í hans lífi. Hveragerði kemur þarna mikið við sögu og er virkilega gaman að lesa um það.  Viktor Sveinsson á heiður skilinn fyrir að benda mér á þessa bók sem ég vissi ekki að væri til.   En þar sem ég var svo niðursokkin í lesturinn sat ég of lengi í sólbaði og það sést alveg núna í kvöld !

Söfn og búðir eftir hádegi enda nauðsynlegt að hvíla sig aðeins á sólinni.  Kíktum á sumarsýningu Nýlistasafnsins og þar var Helgi Þorgils Friðjónsson í forgrunni með nokkuð mörg verk á sýningunni Aliens. Gaman að því.  Það er svo merkilegt hvað Íslendingar eru víða orðnir áberandi.  Í Ljubljana þegar við vorum þar var einmitt í gangi tónlistarhátíð og aðal bandið á öllum auglýsingum var einmitt Retro Stefson.  Þar fórum við á tónleika með Sóleyju og Sigurður Guðmundsson var í guðatölu hjá afgreiðslumanninum í plötubúðinni ! 

Leigðum aftur hjól síðdegis og hjóluðum út með sjónum og út að þessum risastóru varnargörðum sem ná 2,5 km út í hafið beggja vegna við ánna sem myndar höfnina.  Heilmikið mannvirki og merkilegt að labba svona mjóan stíg svona langt út í sjó.  Þetta var gert til að stoppa  sandburðinn inn í höfnina sem var gríðarlegur og mikil ógn við höfnina á sínum tíma.  Hljómar óneitanlega kunnuglega. 


Þarna erum við komin nokkuð áleiðis út á garðinn 


Beint úr spa´inu og út - ekkert stúss við að finna sig til ! ! !  



Hér eru allir á hjólum enda hjólastígar og hjóla grindur hreint alls staðar.  Þetta er frábær máti til að skoða sig um enda getur maður þvælst miklu víðar en annars.   

Salt sauna, reyk sauna og aróma sauna og svo beint að horfa á leik.  

Keyrum til Tallin á morgun - það verður nokkuð ólíkt letilífinu hér í Parnu. 

Tuesday, July 5, 2016

Sé á facebook að Hvergerðingar eru að mögla svolítið vegna ágangs ferðamanna og löngum röðum í verslunum.  Mikið væru nú aðrir, til dæmis, íbúar Parnu í Eistlandi, fegnir ef þetta væri vandi.  Hér finnst okkur ekki mikið af túristum miðað við gæði staðarins og það sem er boðið uppá og þó að það sé hellingur af fólki á ströndinni tekur maður ekki eftir því því hún er svo gríðar stór. 


En annars höfum við haft það notalegt í dag.  Morgunmaturinn endar ávallt á kampavíni sem er siður sem borgar sig alls ekki að venja sig á en er samt ansi huggulegt.  Eftir hann fórum við og leigðum okkur hjól og hjóluðum í kringum borgina, út í skóg sem er hér rétt hjá og fórum ansi víða.  Hér er ótrúlegt einfalt að hjóla.  Hjólastígar víða og náttúrulega alveg marflatt eins og landið allt.  Náðum að skoða heilan helling og veðrið lék við okkur.   Urðum samt að vera komin á skikkanlegum tíma á hótelið þvi við áttum tíma í nudd meðferð.  Þetta  var þvílíkt dekur.  Eyddum svo deginum í sólbaði í Spa inu á milli þess sem við fórum í saunur og pottana.  Maður getur alveg vanist þessu ...   Ég er koma heim með helling af hugmyndum sem við gætum jafnvel gert í Laugaskarði með litlum tilkostnaði :-)  Í kvöld fórum við út að borða með Toivo Riimaa sem ég hef kynnst í vinnu minni í Evrópusamstarfi sveitarfélaga.  Mjög skemmtilegt að hitta hann og gaf hann okkur ýmis góð ráð varðandi framhald ferðarinnar og ekki síður um sögu og siði hér í Eistlandi.  Hann til dæmis sagði okkur að hér væru víst ýmis náttúrufyrirbrigði og til dæmis væri hér í landinu einn foss sem er alveg heilir 6 m.

Skilti eins og þetta eru hér út um alla borg.  Sem væri svo sem ekki í frásögur færandi nema að þetta er listaverk eftir Helga Þorgils Friðjónsson sem greinilega er á sýningu hér.  Við ætlum að kíkja á þetta á morgun.

Verð síðan að segja ykkur frá því að við Lárus fórum á markað í gær og þar voru tvær konur að selja Tupperware.  Þær voru báðar með tombólu og þar sem Lárus er tombólu óður þá keypti hann miða og svo fleiri og fleiri...   Hann vann einhvern helling af dóti frá Tupperware, skálar, dósir, könnur og fleira.  Hann er núna alsæll með Tupperware´ið sitt sem kostaði innan við 2.000.  Verst að þurfa að drösla þessu heim og ég get ekki verslað við Jóhönnu Ýr næstu árin...

Hér eru víða falleg hverfi og einstaklega fallegir og stórir garðar þar sem mikið er ræktað til nytja. 
Þetta var til dæmis afar falleg gata...

Monday, July 4, 2016

Einu sinni í mánuði er "þrifa og viðhalds dagur" í Spainu hér á Estonian.  En þá fengum við aðgang að medical spa sem er hér við hliðina í staðinn.  Eyddum morgninum þar.  Greinilega eldra hús en samt alveg ótrúlega flott.  Þar voru mergjaðir heitir pottar og sánur eins og hér af ýmsum toga.  Fjölbreytnin í þessu er ótrúleg.  Þeir þarna hinu megin hafa það þó framyfir að þarna er tyrkneskt bað.  Þegar ég horfði þangað inn þá minnti sýnin mig óneitanlega á selalátur þar sem fólkið flatmagaði á marmaranum.

Fórum á ströndina í dag svona á milli skúra en hér rignir með hléum. Þegar maður veit af fjöldanum sem núna heimsækir Ísland dauðvorkenni ég þjóðum eins og þeim hér þar sem maður sér varla túrista.  Hér höfum við varla hitt nokkra aðra en Finna og Eistana sjálfa. Við erum skrýtna fólkið á staðnum - aftur !

Á hótelinu er líka boðið uppá alls konar meðferðir og líkamsrækt og án þess að fara nánar út í það þá brugðum við okkur í body pump tíma núna síðdegis.  Til að gera langa sögu stutta þá hefur Lárus endanlega ákveðið að leggja ekkert sem líkist þessu fyrir sig í framtíðinni.  Hann var ekkert ofboðslega hrifinn en mér fannst ég komin í tíma til Loreley nema að hennar tímar eru betri :-)

Við erum að verða að sveskjum hérna á þessu hóteli enda liggjum við í bleyti allan daginn og sundfötin ná aldrei að þorna...

Sunday, July 3, 2016

Keyrðum frá Turi til Parnu sem er sumardvalarstaðurinn í Eistalandi.  Huggulegur bær við ströndina en hér skilst mér að ströndin þessi hvíta, breiða og fallega sé um 550 km.  Teygir sig auðvitað bæði til Lettlands og Litháen.

Erum hér á glæsihóteli miklu sem heitir Estonia spa and report hotel.  Hér höfum við hugsað okkur að liggja í algjörri leti og njóta alls þess sem hótelið hefur uppá að bjóða. Sem er ekki lítið !

Á spa svæðinu er stór innisundlaug með alls konar heitum pottum, nuddi og bunum.  Hér er fjöldinn allur af sánum og gufuböðum með alls konar upplifunum.  Enn sem komið er elska ég mest aroma sánu og salt sánuna !  Það er tær snilld.

Annars undirbjuggum við eins og aðrir okkur fyrir leik Frakka og Íslendinga.  Grófum upp stað þar sem mótorhjólamenn  hittast og horfa á leiki og vorum það í gærkvöldi.  Þar voru eingöngu stuðningsmenn Íslands þó að við höfum verið einu Íslendingarnir á staðnum.  Þetta var bara gaman þó að við hefðum ekki skilið eitt einasta orð af því sem sagt var.  Mikið sem okkar menn eru búnir að standa sig vel og gleðja þjóðina. Svo ekki sé nú talað um auglýsinguna sem landið hefur fengið út á þennan árangur.  Það er hreint út sagt með ólíkindum að hver einasti maður hér þekkir liðið og Ísland.  Og vel að merkja það halda allir með okkar mönnum - allir !

Saturday, July 2, 2016

Ef einhver ætlar að gefa mér herragarð viljið þið þá minna mig á að ég ætla að segja - Nei takk! ! !   Hér er Svíinn búinn að gera upp þennan stóra herragarð með góðum styrkjum frá Evrópusambandinu meðal  annars og greinilegt er að það verkefni er endalaust.  Við  erum í nýrri álmu en morgunmatur í aðalbyggingunni sem aldeilis þarf að taka í gegn miðað við mygluna sem var sjáanleg í öllum útveggjum.  Held að margir heima hefðu nú fengið tilfelli ef þeir hefðu séð þetta!   En morgunmaturinn var flottur hjá þeim hjónum.  Aftur lagt á borð fyrir tvo enda við ein á staðnum og kræsingar af öllum mögulegum tegundum lagðar á borð bara fyrir okkur.   Þetta er fallegur herragarður sem mikið er búið að lagfæra en vinnan og verkefnin eru í raun endalaus.  Á veturna þarf að kynda upp með við í átta ofnum á mismunandi stöðum í húsinu bara til að halda því volgu.  Hér þarf að kaupa 80 rúmmetra af eldiviði á ári og það dugar samt ekki til að hafa notalegt.  

Fórum inn í bæ um hádegi, byrjuðum í kjörbúðinni þar sem verðlag er svo asnalega lágt að mann langar helst til að kaupa allt. Kíktum svo miðstöð handverkskvenna sem var yndislega falleg.  Þar sat um tugur kvenna og heklaði blóm af ýmsu tagi á stóran hnött sem settur hafði verið upp í tilefni dagsins. Þarna fékkst allt milli himins og jarðar af hekluðum listmunum en hekl virðist vera þjóðaríþrótt hér.  Hér tíðkast á hátíðum að íbúar opni garða sína og hús og "selji" veitingar.  Bráðsniðugt og ólíkt huggulegra en óhemju gangurinn heima við sem tíðkast til dæmis á Dalvík þar sem hundruðir gesta vaða í gegnum hús og garða til að fá ókeypis súpu.  Við ásamt Pipi Liis  röltum hér á milli heimila þar sem voru opin hús.  Virkilega skemmtilegt og notalegt.  Þarna var víða búið að setja upp heilu veitingastaðina í görðum þar sem fólk gat komið og "keypt" sér veitingar á afar vægu verði.  Grillkjöt, kökur og ís og margt margt annað.  Músík og skemmtilegheit í öllum görðum.  Mikil upplifun :-)   

Síðdegis var Pipi Liis með boð fyrir fyrrverandi bæjarfulltrúa og annað mektarfólk í kúltúrhúsi staðarins.  Við tókum einnig þátt þar enda erum við eins og Skuggi bæjarstjórans hér þessa dagana. 

Í kvöld voru síðan útitónleikar hér niður við vatnið þar sem þjóðlagamúsík var spiluð af miklum móð og allir enduðu síðan dansandi á sviðinu og við líka !   Mesta furða hvað við vorum góð í þessu þjóðlaga hoppi sem hér tíðkast. Flugeldasýning og kertafleyting á vatninu voru síðan hápunktar kvöldsins.  Virkilega gaman. 

Nýjustu fréttir af flugnabitunum um eru aftur á móti þær að ég er að drepast í olnboganum enda eitt svakalega svæsið bit þar á ferð, stokkbólgin. Fjögur önnur eru heldur skárri en samt ansi bólgin.   Ég makaði á mig alls konar illa lyktandi flugnafælum oft í dag og 7.9.13 slapp við ný bit.   

Annars er ég komin á þá skoðun að hugurinn og viljinn sé til miklu meiri stórræða bæði í ferðalögum og öðru héldur en líkaminn leyfir í mínu tilfelli.   Mér finnst það ansi grautfúla .....
Síðdegis var Pipi Liis með boð fyrir fyrrverandi bæjarfulltrúa og annað mektarfólk í kúltúrhúsi staðarins.  Við tókum einnig þátt þar enda erum við eins og Skuggi bæjarstjórans hér þessa dagana. 

Í kvöld voru síðan útitónleikar hér niður við vatnið þar sem þjóðlagamúsík var spiluð af miklum móð og allir enduðu síðan dansandi á sviðinu og við líka !   Mesta furða hvað við vorum góð í þessu þjóðlaga hoppi sem hér tíðkast. Flugeldasýning og kertafleyting á vatninu voru síðan hápunktar kvöldsins.  Virkilega gaman. 

Nýjustu fréttir af flugnabitunum eru aftur á móti þær að ég er að drepast í olnboganum enda eitt svakalega svæsið bit þar á ferð, stokkbólgin. Fjögur önnur eru heldur skárri en samt ansi bólgin.   Ég makaði á mig alls konar illa lyktandi flugnafælum oft í dag og 7.9.13 slapp við ný bit.   

Annars er ég komin á þá skoðun að hugurinn og viljinn sé til miklu meiri stórræða bæði í ferðalögum og öðru héldur en líkaminn leyfir í mínu tilfelli.   Mér finnst það ansi grautfúla .....

Friday, July 1, 2016

Liepupe Manor er málið ef þið eigið leið um Lettland.

Komumst að raun um að við vorum á 5 stjörnu hóteli þegar við fórum í morgunmat í dag.  Lagt á borð fyrir tvo enda vorum við einu gestirnir eins og áður hefur komið fram. Marlene Dietrich á gamaldags grammófóni, Páfagaukar í búri, hugsað um hvert einasta smáatriði og þarna vorum við eins og á Downton Abbey, eini munurinn var að þarna talaði enginn ensku en ég fékk ágætis tækifæri til að sporta þýskuna mína í staðinn.  Þýska virkar nefnilega vel hjá eldri kynslóðinni í þessum löndum.  

Storkahreiður var við hliðina á hótelinu sem við kíktum á og fengum líka að sjá matjurtagarða hótelisins og gRóður hús staðarins.  Af eðlilegum orsökum er það eitthvað sem ég hef mikinn áhuga á i bili.  Ákváðum að fara í garðaskoðun í bæ sem heitir TUIJA.  ÞAr heimsóttum við gamlan mann sem átti yndislegan garð, alls konar plöntur og einstaklega fallegt, hann reyndi svo mikið að segja okkur hvað allt hét en hann kunni nú ekki einu sinni þýsku...  Því fóru útskýringar hans fyrir lítið.  Í gegnum garðinn hafði hann leitt heilan læk með fossum og flúðum en því miður var hann vatnslaus vegna þurrka í dag.  Garðurinn opnaðist út að þessari líka flottu sandströnd sem hlýtur að vera eftirsóknarvert.

Þaðan fórum við áfram að landamæra bænum Ainazu.  Keyrðum niður að höfn eftir Kristjáns Valdimars götu, svolitið smart það !   Fundum þar sérkennilegar steinhleðslur sem lágu nokkur hundruð metra út í sjó og inní land.  Komumst að því að þetta var hleðsla undir járnbrautarteina frá því á nítjándu öld.  Þarna var enn ein sandströnd in alveg hreint yndisleg.  Volgur sjórinn og svo grunnt að manni fannst sem það mætti ganga til Svíþjóðar.   EN aftur þarna var heldur enginn. Stundum líður manni eins og Palla sem var einn í heiminum hér ...

Þarna liggja landamærin þvert í gegnum þennan bæ svo hús sem eru hlið við hlið við götu lenda í sitt hvor landinu.   Það eru nú lítilfjörlegt að ræða sveitarfélagamörkin við Ölfusið miðað við það  :-)

Keyrðum síðan frá Ainizu gegnum Parnu og upp til TÚri.  Þar fundum við bæinn fljótt og vel enda  elskum við G arminn hans Helga orðið mikið ...   Hér í Túri var ég búin að panta gistingu í tvær nætur á herragarði bæjarins, Tori manor.  Hér var tekið einstaklega vel á móti okkur og merkilegt nokk.- við erum einu gestirnir á hótelinu ! ! !   Gestgjafinn er skipulagsfræðingur sem alinn er upp í Svíþjóð en foreldrar hans voru eistneskir flóttamenn. Hann flutti síðan til Eistlands og hefur verið að gera upp þennan herragarð, virkilega huggulegt.  Ég var reyndar svo vitlaus að segjast kunna sænsku - þannig að nú talar gestgjafinn um allt og ekkert á sænsku sem mér finnst alltaf frekar þreytandi mál - auðvitað er það vegna þess að ég kann ekki sænsku.  Kann norsku og dönsku og skil sænskuna en verð alltaf svo lúin þegar ég þarf að eiga langar samræður á sænsku.

Við fórum síðan inn í bæinn og hittum Piipi-Liis borgarstjórann hér i bænum á alveg einstaklega flottu POP-up  veitingahúsi hér rétt hjá.  Piipi og ég höfum kynnst í gegnum Evrópusamtök sveitarfélaga og margt oft hist erlendis.  Núna er bærinn hennar 90 ára svo við ákváðum að heimsækja hana og fylgjast með hátíðahöldunum.  Eftir kaffihúsið fórum við í Lystigarð þeirra bæjarbúa þar sem voru fleiri pop-up kaffihús og veitingastaðir auk þess sem fjöldi hljómsveita og meira að segja magadans eyjar stigu á stokk.  26 stiga hitti í dag og sól en heldur kólnaði með kvöldinu.  Bitin eru mig lifandi að drepa en ég sýni aðdáunarverða stillingu og klóra þau ekki en ég held að það hafi farið með mig í fyrra...

Thursday, June 30, 2016

Túristarnir eru allir heima á Fróni ...

Þvílík örtröð sem var á Keflavíkur flugvelli í morgun.  Urmull af vélum á vellinum sem annað hvort voru nýkomnar eða við það að fara svo flugstöðin var fáránlega troðfull af fólki.   Mestmegnis útlendingar !
Í Riga var annað uppá teningnum, eyðilegt um að litast á flug hlaðinu, eingöngu vélar frá AirBaltica á vellinum, flugstöðin lítil og þeir sem þar voru voru flestir heimamenn!  Hér verðum við alls ekki vör við ferðamenn eins og heima og hér sjáum við best hversu mikill ferðamannastraumurinn er orðinn til okkar. 

Á flugvellinum fengum við okkur bílaleigubíl og stilltum garmin sem leiddi okkur örugglega út úr Riga og norður á bóginn í átt að landamærunum.  Ég pantaði í fyrradag gistinguna hér í kvöld á einstaklega flottu hóteli sem er eins og lítill herragarður. Virkilega glæsilegt en húsið þykir eitt það al fallegasta í Lettlandi og hönnunin er alveg hreint meiriháttar í gömlum stíl.   Heitir Liepupe manor !   Í kvöld fóru við niður að ströndinni og til að komast þangað urðum við að fara í gegnum skóginn. Þar fundu moskítóflugur mig og bitu ansi kröftuglega.  En nú mundi ég ráðin hennar Unnar, fór strax og tók ofnæmistöflur og bar á mig ofnæmiskrem og viti menn ég held bara að bitin séu strax að hjaðna - takk Unnur ! 

Liepupe Manor er einstaklega glæsilegt hótel - en við erum einu gestirnir sýnist okkur í kvöld ! ! ! 
Svona hótel stæði ekki tómt í einn dag ef það væri heima á Fróni ! 

Verulega flottur matur og Glæsileg umgjörð. 

Á ströndinni ....

Wednesday, June 29, 2016

Ferðalangarnir ....


Þessi skrif eru svo til eingöngu ætluð okkur sjálfum til að við getum rifjað upp það sem á dagana okkar mun drífa í Eistlandi og Lettlandi í júlí 2016.

Við eigum ekki von á að lenda í viðlíka hremmingum og á síðasta ári enda bæði árinu eldri og reyndari.  Nú verður ekki setið út í skógi á kvöldin með öllu mýinu eða ekið án öryggisbeltis á ofsahraða eftir aðalgötunum.  Nei við erum á leíðinni til Eistlands og Lettlands án þess að vera búin að skoða svo mikið sem eina blaðsíðu í ferðahandbók.  Spurning hvað er að skoða og hvað er að sjá og hvar við munum enda...

Spennandi - svo fylgist endilega með :-)