Friday, July 8, 2016

Vöknuðum nær dauða en lífi vegna kulda í morgun og eyddi ég drjúgri stund í að blóta þessu hóteli fyrir loftræstinguna sem hafði verið á fullu í alla nótt og hitastigið að nálgast frostmark í herberginu.  Netið er vonlaust í herberginu og nú bættist loftræstingin við ! ! !   Var alveg komin í gírinn til að sýna starfsfólkinu í móttökunni í tvo heimana þegar Lárus dró fram fjarstýringuna af loftræstingunni sem hafði verið stillt ansi neðarlega svo þetta var okkar eigin aulaháttur.  Ekkert rifist þennan morguninn og enginn ennþá orðinn lasinn ...


Vorum komin út af hótelinu um hálf ellefu og hófst þá skoðunarferðin mikla a la Aldís.  Keyptum Tallin kort og þá verður auðvitað að nota það.  Byrjuðum í kirkju hér rétt hjá sem hýsir Niguliste safnið.  Þar voru helstu gripir altaristafla ein forkunnarfögur og listaverkið Danse Makabre sem er þjóðargersemi hér í Tallin.  Mjög skemmtilegt að sjá þetta og kirkjuna auðvitað líka en hún hefur að fullu verið endurbyggð eftir að hafa verið sprengt í tætlur í mars 1944. Fórum þaðan á sýningu samtakanna sem stóðu fyrir söngbyltingunni sem endaði með sjálfstæði Eistlands árið 1991. 

Röltum þaðan á Occupation safnið sem er einstök minning um þann tíma sem Eistland var undir stjórn annars vegar Þjóðverja og síðan Sovétríkjanna. Það var hreint með ólíkindum að sjá og lesa um þennan tíma og það ofríki og kúgun sem þjóðin mátti búa við.  Bókin 1984 sem ég er nýbúin að lesa lýsir þessu í raun gríðarlega vel en þarna á safninu mátti sjá hvernig til dæmis sögubókum var breytt og staðreyndir þurrkaðar út til að þær hugnuðust betur kommúnistunum í austri.  Gert var grein fyrir öllum þeim fjölda sem sendur var í Gúlagið fyrir litlar sem engar sakir og einnig þeim tugþúsundum sem höfðust við í skógunum á þessum tíma.  Þarna var síðan átakanlegt verk sem var framlag Eistna á Feneyjatvíæringum stýrir nokkrum árum sem gerði grein fyrir sögu manns sem var yfirmaður á samyrkjubúum þegar upp komst um samkynhneigð hans og niðurlæginguna, refsingarnar og pyntingarnar sem hann varð fyrir áður en hann síðan var myrtur.

Ég veit vel að hin frjálsu Vesturlönd eru ekki fullkomin en eftir því sem maður kynnir sér betur sögu þeirra þjóða sem máttu lúta ofríki og kúgun Kremlarstjórnar finnst manni það nærri óskiljanlegt að nokkur upplýst manneskja skuli enn þann dag í dag horfa til þessa tíma og þessa stjórnarfars með glýju í augum.  Mikill er misskilningurinn og blindnin ef svo er....


Fórum frá þessu safni að virkinu sem umlykur gamla bæinn hér í Tallinn. Þar klifum við nokkra turna og nutum útsýnisins og gengum auk þess 200 m langa trébrú sem hangir á milli tveggja turna.  


Þaðan tókum við strætó hér aðeins út fyrir miðbæinn og skoðuðum stórkostlegt safn Seaplane Harbour.  Þar er með gagnvirkum og líflegum hætti gerð grein fyrirr sjóferðum, kafbátum, ísbrjótum og fleirum er tengist hafinu og hernaði.  Hef sjaldan komið í tæknivæddasta safn en við komu skráði maður netfangið sitt og fékk sérstakt kort og ef manni leist vel á eitthvað af upplýsingunum á skjánum sem voru út um allt bar maður kortið að vélinni og fékk upplýsingarnar sendar í tölvupósti.  Mergjað.  Þarna fórum við í skrilljónasta  skiptið að skoða kafbát - held að ég sé búin að skoða þá fyrir lífstíð.  En heimsóknin í ísbrjótinn var ekki síður skemmtileg.  Auðvitað var einstaka sinnum tekið hlé á skoðunum og kíkt á veitingastaði og í búðir en hér er fjöldi skemmtilegra hverfa og staða þar sem má slappa af og njóta tilverunnar og mannlífsins. 

Fórum í kvöld á einstaklega góðan veitingastað hér við aðaltorgið sem heitir D.O.M.  Kokkurinn tók okkur með kostum og kynjum og gátu þeir Lárus rætt heilmikið um Bocuse D´Or keppnina sem er sameiginlegt áhugamál allra matreiðslumeistara.   En það er hæglega hægt að mæla með þessum stað , einstakur matur í fallegu umhverfi.  

No comments:

Post a Comment