Enn einn ljúfur dagur í Parnu. Morgunverður og kampavín og svo langur göngutúr um ströndina. Ég læt ekki Lárus komast upp með að losna við ströndina þó hann þoli ekki sand. Ég elska sjóinn og sandinn og get ráfað þarna um endalaust...
Við erum alveg að njóta þess að búa á spa hóteli og þetta er nú með þeim betri. Sleiktum sólina á útisvæðinu eftir fótsnyrtingu og ég náði að klára bókina Borgir og eyðimerkur eftir Sigurjón Magnússon. Fantagóð um Kristmann Guðmundsson og erfiða tíma í hans lífi. Hveragerði kemur þarna mikið við sögu og er virkilega gaman að lesa um það. Viktor Sveinsson á heiður skilinn fyrir að benda mér á þessa bók sem ég vissi ekki að væri til. En þar sem ég var svo niðursokkin í lesturinn sat ég of lengi í sólbaði og það sést alveg núna í kvöld !
Söfn og búðir eftir hádegi enda nauðsynlegt að hvíla sig aðeins á sólinni. Kíktum á sumarsýningu Nýlistasafnsins og þar var Helgi Þorgils Friðjónsson í forgrunni með nokkuð mörg verk á sýningunni Aliens. Gaman að því. Það er svo merkilegt hvað Íslendingar eru víða orðnir áberandi. Í Ljubljana þegar við vorum þar var einmitt í gangi tónlistarhátíð og aðal bandið á öllum auglýsingum var einmitt Retro Stefson. Þar fórum við á tónleika með Sóleyju og Sigurður Guðmundsson var í guðatölu hjá afgreiðslumanninum í plötubúðinni !
Leigðum aftur hjól síðdegis og hjóluðum út með sjónum og út að þessum risastóru varnargörðum sem ná 2,5 km út í hafið beggja vegna við ánna sem myndar höfnina. Heilmikið mannvirki og merkilegt að labba svona mjóan stíg svona langt út í sjó. Þetta var gert til að stoppa sandburðinn inn í höfnina sem var gríðarlegur og mikil ógn við höfnina á sínum tíma. Hljómar óneitanlega kunnuglega.
Þarna erum við komin nokkuð áleiðis út á garðinn
Beint úr spa´inu og út - ekkert stúss við að finna sig til ! ! !
Hér eru allir á hjólum enda hjólastígar og hjóla grindur hreint alls staðar. Þetta er frábær máti til að skoða sig um enda getur maður þvælst miklu víðar en annars.
Salt sauna, reyk sauna og aróma sauna og svo beint að horfa á leik.
Keyrum til Tallin á morgun - það verður nokkuð ólíkt letilífinu hér í Parnu.
No comments:
Post a Comment