Vöknuðum fyrir allar aldir í morgun, algj0rlega að ástæðulausu. Vorum komin í morgunmat eldsnemma og eftir hið daglega kampavín drifum við okkur í göngu um ströndina svona í síðasta sinn. Fórum svo í spa einnig í hinsta sinn. Nú gerðum við greiningu á aðstöðunni til að muna ef að við myndum nú einhvern tíma þurfa að vita svoleiðis lagað. Í sundlauginni eru 11 stöðvar með alls konar nuddi og bunum og flóðum og slíku. Þrír heitir pottar eru inni allir með nuddi. Bar er í lauginni að sjálfsögðu og þarna eru einnig legu bekkir og upphitaðir stórir flísalagðir bekkir sem eru guðdómlega sniðugir. Utandyra eru tveir nuddpottar og sólbaðsaðstaða af bestu gerð. Gufuböðin eru fjölmörg en algjört uppáhald eru smoke sauna, aróma saunan og Salt sánan. Eftir þessa daga erum við svo fínpússuð að það hálfa væri nóg ...
Í morgun prófuðum við svo loksins Dauðahafs laugina sem er flot laug. Það var frábær upplifun og afar afslappandi. Saltið er svo mikið i vatninu að maður á í basli með að halda sér uppistandandi. Bragðið af þessu minnir óþyrmilega á bragði af bræninu í eldgamla frosptinnakerinu sem einhverjir muna kannski eftir. Maður heldur að maður deyji hratt og vel ef þetta er gleypt - sem auðvitað á ekki að gera !
Öllu þessu náðum við fyrir hádegi eða áður en við yfirgáfum hótelið og héldum af stað til Tallin. Ef einhver heldur að það sé flókið að ferðast í þessu landi þá er það mikill misskilningur. Hér eru góðir vegir þó flestir minni þeir á veginn milli Hveragerðis og Selfoss. Umferðin er ekki mikil og allir eru afar kurteisir og liðlegir. Landið er auðvitað marflatt og fátt sem vekur athygli meðfram veginum. Nema ef vera skyldu afar vel hirtir og fallegir garðar við heimahús en margir leggja gríðarlega vinnu í garðana sína.
Byrjuðum á að finna verslunarmiðstöð hér í Tallin því ég var búin að ákveða að kaupa mér blómatösu á nýja reiðhjólið mitt og hún fékkst eingöngu á einum ákveðnum stað hér. Missti mig síðan örlítið í verslunarmiðstöðinni úr því að maður var nú kominn þangað. Verðlagið hér er auðvitað bara grín :-)
Hótelið okkar er við aðaltorgið í Tallin sem var vægast sagt misráðið... Lentum í þvílíkum vandræðum með bílinn og enduðum á að þurfa að leggja þónokkuð í burtu og vandræðast síðan með farangurinn uppá hótel. Það er auðvitað gaman að vera svona í miðbænum en músíkin frá kránni hér í 2 metra fjarlægð er nú ekkert sérstaklega að gleðja mann...
En Tallin er falleg borg sem við skoðuðum aðeins í kvöld þrátt fyrir að það væri bæði kalt og blautt. Þegar fór nú að hvessa líka var betra að kúra bara á hótelinu og horfa á fótbolta... Það getur víðar verið hráslagalegt en á Íslandi ...
No comments:
Post a Comment