Sunday, July 10, 2016

Fínt hótel hér í Sigulda en morgunmaturinn var vonbrigði.  Nennti nú reyndar ekki að agnúast út af því því greinilegt var að blindfullu Finnarnir sem hér voru í rútuferð höfðu étið allt upp til agna og ekkert var fyllt á aftur.  Nú get ég skemmt mér yfir að "rate´a" hótelið illa svona til tilbreytingar frá öllu þessu jákvæða frá mér á www.booking.com.

Byrjuðum daginn á langri gönguferð um Sigulda.  Þetta er helsti sumardvalarstaður Lettlands inn í landi en hér eins og í Eistlandi er vinsælast að fara á ströndina.  En hér skoðuðum við Sigulda kastala, pappírs framleiðslu, kirkjuna og stafa garðinn áður en fór a helli helli rigna.  Náðum að skjótast undir tré og þar urðum við að híma í hátt í 20 mínútur.  Ekki það gáfulegasta, veit það,  en það voru engar eldingar !   Hér er afar skemmtilegur ævintýragarður kenndur við Tarzan enda eru þetta miklar klifur brautir upp og niður trén hér í skóginum.  Við tókum stólalyftu hér á milli svæðanna og skemmtum okkur konunglega við að horfa á krakkana klifra í þessum tækjum.   Meiriháttar flott...

Myndin hér að neðan er af einum af turnum gamla Sigulda kastalans.  Þarna eru búið að koma fyrir þessum útsýnisturni ofan á virkisveggnum og trúið því eður ei ---- það er lyfta upp (Euromoney).  En þarna uppi við þakglugganan hölluðum við hjónin okkur bæði út um gluggann og ég lýg því ekki við fundum bæði að húsið hreyfðist...  Djö... sem við vorum fljót niður.  Eitthvað ekki alveg í lagi með verkfræði hönnunina á þessum bænum ! 



Þessari mynd stal ég á netinu - raunveruleikinn er allur annar ! ! ! 

Hér er farið með kláfi yfir á hinn gilbarminn á Gauja, ef gil skyldi kalla þessa dæld í náttúrunni !  Þar er Krimulda kastali bæði sá eldri og yngri.  Á myndum er yngri Kastalinn afskaplega fallegur byggður í lok 19. aldar.  En í raun þarfnast hann svo sárlega viðhalds að það er hreint dapurlegt.
Þarna er verið að reyna að halda úti einhvers konar heilsustofnun en mikið lifandis myndi ég verða fyrir miklum vonbrigðum ef ég hefði keypt mér dvöl í þessari hryggðarmynd...


Enduðum  daginn í Turaida en þar er enn einn miðaldakastalinn.  Þarna eru aftur á móti greinilega til peningar og allt er svo flott og vel hirt.  Það er hreinlega verið að byggja upp kastalann aftur og allt svæðið er svo glæsilegt.  Ætli þetta séu ekki Euromoney sem þarna eru í notkun.  Það er svo greinilegt að öll baltneskum löndin hafa notið mjög góðs af aðild sinni að Evrópusambandinu.  Hér eru öll stærstu mannvirkin og þau sem eru flottust og bestu vegirnir merktir framlögum frá Evrópusambandinu.  Það tala allir um Euromoney og að með þeim sé hægt að gera svo góða og glæsilega hluti.  Í Sigulda var til dæmis útisvið með tilheyrandi aðstöðu sem er svo stórt og flott að það tekur engu tali.  Ætli sviðið sjálft hafi ekki slagað í 800 m2 fyrir utan aðstöðu og fáránlega stórt hellulagt svæði fyrir áheyrendur.  Euromoney engin spurning. Hér er í raun betri aðstaða víða en heima.  Það eru hreint alls staðar salerni eins og þessi enda sést hvergi nokkurs staðar til manneskju út í móa að pissa.



Við erum auðvitað ekkert minna en snillingar í að gera einfalda hluti flókna Íslendingar...  OG svo var það auðvitað snilldarlegt að slíta viðræðum við ESB þegar alveg hefði dugað að setja þær á hold. Held að við hefðum alveg örugglega þegið svolítið af Euromoney víða á Íslandi.

Núna þegar ég skrifa þetta er heill þáttur í eistneska sjónvarpinu um Sigurrós.  Flott landkynning þó að ég sé ekki alveg að fíla músíkina....

Borðuðum á frábærum stað í kvöld:  Restaurant Kungu Rija í Turaida.

No comments:

Post a Comment