Monday, July 11, 2016

Engin mynd í dag en ég gleymdi að taka myndir á símann sem er nauðsyn eigi þær að rata hingað inn. Get ekki lýst því hvað ég hef oft pirrað mig á því að hafa ekki keypt myndavél með WiFi möguleika þegar ég endurnýjaði græjurna í fyrra.  Nennti bara ekki að skilja tilganginn í búðin en fattaði dæmið eiginlega um leið og ég tók fyrstu myndina. Verulega seinheppið ...

Annars fórum við frá Sigulda í dag og keyrðum til Riga.  Þetta eru nú ekki nema um 60 km svo við vorum enga stunda á leiðinni.  Það rigndi hreinlega eldi og brennisteini á leiðinni svo við hættum við öll stopp sem við vorum búin að ákveða, rennum bara til baka á morgun. 

En í dag erum við búin að skoða að ég held allt það markverðasta í Riga. Þessi borg er augljóslega ekki Tallin sem mér finnst heldur skemmtilegri svona hreinskilnislega. En Riga er falleg, gömul borg þar sem grænt umhverfi og garðar eru áberandi.  Hér eru sérstæð og merkileg hús á hverju strái sem gaman er að skoða.  Fórum i "Occupation museum" og þar með höfum við heimsótt þau öll í öllum baltnesku löndunum.  Saga þessara landa er afar samtvinnuð þó að hér sé um gjörólíkar þjóðir að ræða.  Ég get ekki annað en fyllst óendanlegu þakklæti fyrir þá gæfu að hafa fæðst Íslendingur þegar maður sér þær hörmungar sem gengið hafa yfir þessar þjóðir en velflestar eru þær af mannavöldum sem er ólíkt þeim hörmungum sem íslenska þjóðin þurfti að glíma við.  Mannvonska, hatur, eyðilegging, pyntingar, limlestingar og illvilji er eitthvað sem maður þarf vonandi aldrei að upplifa.  Við eigum að vera svo óendanlega þakklát fyrir það land og þann frið sem okkur hefur verið gefinn.  Þetta er nefnilega ekki sjálfgefið ! 

Gerðuð þið ykkur grein fyrir því að Pepsi fæst ekki í þessum löndum !   Þar af leiðandi fæst ekki Pepsi max sem er frekar slæmt mál !    Ætli þetta sé markaðsmisnotkun ! ! ! 

No comments:

Post a Comment