Saturday, July 9, 2016

Ef einhver heldur að þetta sé frí þá er það mikill misskilningur...  Þetta er ferðalag :-)


Í morgun byrjuðum við á Estonian museum sem er í miðbæ Tallinn.  Þarna var rakin saga Eistlands í 11.000 ár.  Þessi þjóð mælist ítrekað sú óhamingjusamasta í Evrópu og að þeirra eigin sögn er það engin furða.  Hér hefur hver óáránin  rekið aðra um aldir. Plágur, hungursneyðir og síðan hernám þjóðarinnar af ýmsum ríkjum.  Hér hafa Danir, Svíar, Þjóðverjar og Sovétríkin séð til þess að Eistar hafa svo til aldrei verið frjálst og fullvalda ríki.  Þess vegna kannski leggja þeir slíka ofuráherslu á menningu og hefðir eins og raun ber vitni.  Eru í þjóðlegum fatnaði, kunna þjóðdansa og söngvarnir þeirra eru almannaeign og samsöngur eru stærstu útihátíðir hvers sumars.  Annars vekur hvað mesta athygli á söfnunum hvað þau eru framarlega í tækni og gagnvirkni.  Það eru alls staðar snertiskjáir þar sem hægt er að fá upplýsingar og taka þátt í alls konar verkefnum.  Lárus gleymdi sér til dæmis alveg við að hlaða og skjóta af alls konar byssum á einum tölvuskjánum.  Það var stórmerkilegt að sjá...


Kíktum í grasagarð Tallinn sem er bæði stór og afar fallegur.  Þar var rósagarður risastór í blóma og fullt af plöntum eins og tilheyrir á svona stað.  Risastórt gróðurhús sem lét mann dreyma um Eden endurbyggt.  Alltaf gaman að ráfa um í svona garði. 

Lögðum af stað til Lettlands um kl. 14 og ferðinni er heitið til Sigolda sem er bær i Gauja þjóðgarðinum.  Á leiðinni tók Garmurinn sjálfstæða ákvörðun þvert ofan í alla skynsemi og núna þegar þetta er skrifað líður okkur eins og við munum enda í Rússlandi.  Erum að keyra lóðbeint í austur þegar allt vit segir manni að við eigum að fara í suður. Við ákváðum að hlýða kerfinu og þess vegna er spurning hvar við endum ...  Annars er þetta fallegri leið - spurning reyndar hvort að Helgi hennar Sibbu hafi forritað Garminn þannig að við kæmum ekki heim aftur  ! ! !

En eftir miklar efasemdir og akstur um þrönga skógarstíga og furðulegar götur birtist allt í einu skilti með nafni Latvia og við vorum komin yfir landamærin.  Ennþá í skóglendi en þó á leðinni suður...


Eftir akstur á krókaleiðum, malarvegum og eyðilegum vegum sáum við glitta í Sigulda merkingar og vissum að við vorum að nálgast réttan stað.  Renndum í blað 6 tímum eftir brottför frá Tallin og höfum sjálfsagt verið um 1-2 tímum að villast um sveitir Eistalands og Lettlands sem bónus í þessari ferð. 

Sigulda er skemmtilegt svæði sem verður skoðað betur á morgun...

No comments:

Post a Comment