Tuesday, July 5, 2016

Sé á facebook að Hvergerðingar eru að mögla svolítið vegna ágangs ferðamanna og löngum röðum í verslunum.  Mikið væru nú aðrir, til dæmis, íbúar Parnu í Eistlandi, fegnir ef þetta væri vandi.  Hér finnst okkur ekki mikið af túristum miðað við gæði staðarins og það sem er boðið uppá og þó að það sé hellingur af fólki á ströndinni tekur maður ekki eftir því því hún er svo gríðar stór. 


En annars höfum við haft það notalegt í dag.  Morgunmaturinn endar ávallt á kampavíni sem er siður sem borgar sig alls ekki að venja sig á en er samt ansi huggulegt.  Eftir hann fórum við og leigðum okkur hjól og hjóluðum í kringum borgina, út í skóg sem er hér rétt hjá og fórum ansi víða.  Hér er ótrúlegt einfalt að hjóla.  Hjólastígar víða og náttúrulega alveg marflatt eins og landið allt.  Náðum að skoða heilan helling og veðrið lék við okkur.   Urðum samt að vera komin á skikkanlegum tíma á hótelið þvi við áttum tíma í nudd meðferð.  Þetta  var þvílíkt dekur.  Eyddum svo deginum í sólbaði í Spa inu á milli þess sem við fórum í saunur og pottana.  Maður getur alveg vanist þessu ...   Ég er koma heim með helling af hugmyndum sem við gætum jafnvel gert í Laugaskarði með litlum tilkostnaði :-)  Í kvöld fórum við út að borða með Toivo Riimaa sem ég hef kynnst í vinnu minni í Evrópusamstarfi sveitarfélaga.  Mjög skemmtilegt að hitta hann og gaf hann okkur ýmis góð ráð varðandi framhald ferðarinnar og ekki síður um sögu og siði hér í Eistlandi.  Hann til dæmis sagði okkur að hér væru víst ýmis náttúrufyrirbrigði og til dæmis væri hér í landinu einn foss sem er alveg heilir 6 m.

Skilti eins og þetta eru hér út um alla borg.  Sem væri svo sem ekki í frásögur færandi nema að þetta er listaverk eftir Helga Þorgils Friðjónsson sem greinilega er á sýningu hér.  Við ætlum að kíkja á þetta á morgun.

Verð síðan að segja ykkur frá því að við Lárus fórum á markað í gær og þar voru tvær konur að selja Tupperware.  Þær voru báðar með tombólu og þar sem Lárus er tombólu óður þá keypti hann miða og svo fleiri og fleiri...   Hann vann einhvern helling af dóti frá Tupperware, skálar, dósir, könnur og fleira.  Hann er núna alsæll með Tupperware´ið sitt sem kostaði innan við 2.000.  Verst að þurfa að drösla þessu heim og ég get ekki verslað við Jóhönnu Ýr næstu árin...

Hér eru víða falleg hverfi og einstaklega fallegir og stórir garðar þar sem mikið er ræktað til nytja. 
Þetta var til dæmis afar falleg gata...

No comments:

Post a Comment